Biðin og Beyoncé

 

Beðið eftir tónleikum í 20 stiga hita. Á sama tíma bárust fregnir af snjókomu á Íslandi.

Beðið eftir tónleikum í 20 stiga hita. Á sama tíma bárust fregnir af snjókomu á Íslandi.

Jæja. Nú hefur París heldur betur kynnt okkur fyrir dásemdum lífsins. Hér tók á móti okkur 20 stiga hiti, stingandi sól og umvefjandi hlýja.

Við biðum eftir tónleikunum í almenningsgarði þar sem við dreyptum á víni og nörtuðum í baguette. Þar sem okkur hafði verið sendur leynilinkur á netinu fyrir VIP miða þurftum við ekki að bíða í röð ólíkt þeim tugþúsundum tónlistargesta sem höfðu tjaldað til að komast sem fyrst inn. Við lágum þess í stað í sólinni, spókuðum okkur og svo þegar tími var til að kíkja á dívuna gengum við fram fyrir röðina og beint inn. Það voru alveg nokkur ill augnaráð sem mættu okkur á leiðinni.

Hamingjusamar vínkonur á tónleikum í París

Hamingjusamar vínkonur

En sjálfir tónleikarnir voru snilld! Við skemmtum okkur konunglega, sungum með hverju lagi, vorum næstum lamdar fyrir dansæði og felldum tár í faðmlögum yfir Halo. Allt eins og það á að vera.

Við gengum út af tónleikunum miklu ánægðari en við höfðum gert okkur vonir um. Það er alltaf góð tilfinning þegar lífið kemur skemmtilega á óvart.

Hér er svo með vídjó með lokalagi tónleikanna. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar fyrstu tónar Whitney Houston smellara hófust. Það var þó ekkert í samanburði við lætin þegar lagið breyttist í HALO.

NJÓTIÐ

Að undirbúa sál og líkama

Nú förum við stöllur í fyrramálið. Eins og vanalega stóðust engar áætlanir um aukin metnað í námi, hugsun fram í tímann og skipulagðan undirbúning ferðalagsins. Þess í stað sit ég nú heima með hjartsláttatruflanir með verkefnalista sem lengist um tvö atriði í hvert skipti sem ég ætla að strika yfir eitt.

Beyoncé hópurinn sem tryllti Tjarnarbíó með kynþokka, sjálfsöryggi og gleði.

Beyoncé hópurinn sem tryllti Tjarnarbíó með kynþokka, sjálfsöryggi og gleði.

En þrátt fyrir að hafa ekki lokið öllum skólaverkefnum, eiga eftir að kjósa og fara í bankann og leysa út orlofið þá höfum við tekið andlegan og líkamlegan undirbúning föstum tökum á einu sviði. Við skráðum okkur nefnilega á Beyoncé dansnámskeið í Kramhúsinu. Þar hristum við okkur, beygðum, teygðum og gelluðum sem lauk svo með mikilli danssýningu síðasta sunnudag.

Eins og myndbandið hér að neðan sýnir gæti sá undirbúningur ekki hafa heppnast betur og því þarf ekki að hafa áhyggjur af andlegu og líkamlegu þoli þegar við stöndum í æstri þvögunni og berum átrúnaðargoðið augum eftir aðeins tvo daga. TVO DAGA.